KVENNAFERÐ TIL NEUKIRCHEN
HELSTU UPPLÝSINGAR
 |
8 dagar / 7 nætur |
 |
Ferðir til og frá flugvelli |
 |
6. 1. - 13. 1. 2024 |
 |
Flug og flugvallaskattar |
 |
Hámark 18 |
 |
Fararstjóri: Ásdís Sigurðardóttir |
 |
Hálft fæði |
|
|
FRÁBÆRT TÆKIFÆRI FYRIR DÖMUR ÞESSA LANDS TIL ÞESS AÐ BÆTA VERULEGA VIÐ INNISTÆÐUR Í TVEIMUR AF MIKILVÆGUSTU BANKASTOFNUNUM LÍFSINS; REYNSLUBANKANUM OG GLEÐIBANKANUM ;-)
Komdu með til NEUKIRCHEN - skíðafrí í faðmi Austurrísku alpanna!
Neukirchen er fallegur bær neðan við Wildkogel skíðasvæðið og býður upp á gott skíðafrí fyrir hvern sem er, og landfræðilegar aðstæður sjá til þess að svæðið er talið mjög öruggt með snjó.
Hefðbundin svigskíðun er í forgrunni ferðarinnar, en svo eru líka mjög flottar skíðagöngubrautir á svæðinu; hægt er að leigja fjallaskíðabúnað og bæta nokkrum toppum í safnið; fara með skíðastrætó yfir á næstu svæði o.s.frv., að ógleymdri glæsilegri 14 km langri upplýstri sleðabraut þar sem hægt er að upplifa frábæra kvöldskemmtun!
Í nágrenninu eru síðan ýmsir áhugaverðir staðir sem hægt er að skreppa til; frábært safn og sýningar um svæðið og Hohe Tauern þjóðgarðinn í Mittersill; fara í bæjarferð og/eða skíðun í og við Zell am See o.fl. o.fl.
Fararstjórinn Ásdís Sigurðardóttir er fædd og uppalin á Siglufirði. Hún er mikill reynslubolti í útivist og hreyfingu hverskonar og mun leiða hópinn í fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá. Allt hennar líf hefur snúist um íþróttir og heilsurækt og störf hennar alla tíð því tengd. Hún er lærður íþróttakennari, markþjálfi, skíðakennari o.fl. og á og rekur skíðaskóla í Hlíðarfjalli auk þess sem hún er rekstrarstjóri skíðaleigu Fjallakofans í Hlíðarfjalli.
Ferðin er ætluð jafnt fyrir byrjendur sem lengra komnar og Ásdís er fús að veita leiðsögn til þess að bæta stíl og færni. Þegar nær dregur verður hún með kynningar- og afsláttarkvöld í Fjallakofanum í tengslum við ferðina og einnig vill hún bjóða þeim þátttakendum sem það vilja og tök hafa á að hitta hana í Bláfjöllum og/eða Hlíðarfjalli í tvígang fyrir ferðina til kennslu og leiðbeininga (auðvitað háð aðstæðum).
Hótel Gassner:
- Glæsilegt fjögurra stjörnu superior hótel með góðum og vel búnum herbergjum
- Morgunverðarhlaðborð stútfullt af bragðgóðum, hollum og næringarríkum kræsingum
- Fimm rétta kvöldmáltíðir með góðri blöndu af þjóðlegum og alþjóðlegum réttum
- Þægileg og rúmgóð setustofa með arni, tilvalin fyrir notalegar stundir og gott spjall
- „CRYSTAL-SPA“ 1.200 m² heilsulind með sundlaug, heitum pottum og ýmsum gerðum af gufuböðum og öðrum líkamsnærandi meðferðum sem frábært er að njóta eftir góðan dag í fjallinu. Óupphituð útisundlaugin er síðan tilvalin til þess að styrkja ónæmiskerfið með köldu baði – nudd er síðan hægt að panta til þess að fullkomna daginn
- Skíðastrætóinn stoppar við hótelið og með honum er 5 mínútna akstur (ókeypis) að kláfnum og svo endar ein af skíðabrekkunum ofan úr fjalli í hótelgarðinum – þægilegra getur það varla orðið!
- Fimm daga í viku (mánudaga til föstudaga) býður hótelið upp á gönguferðir, bæði hefðbundnar og á snjóþrúgum, með leiðsögn um svæðið í grennd. Frábært tækifæri til þess að skipta aðeins um gír, kynnast Hohe Tauern þjóðgarðinum á nýjan hátt og taka jafnvel þátt í að fóðra villt dýr. Snjóþrúgur, göngustafir og bakpokar fást að láni án endurgjalds í móttöku hótelsins
Wildkogel skíðasvæðið:
75 km af flottum skíðabrekkum þar sem 45 % af þeim eru bláar (byrjendur), 40 % rauðar (miðlungs góðir) og 15 % svartar (lengra komnir). Stutt er yfir í stærri og „þekktari“ svæði eins og Zillertal og Kitzbühel og þau gæti verið gaman að heimsækja líka!
Smelltu á rauða Nánari upplýsingar hér til hliðar fyrir upplýsingar um verð o.fl.
Allar myndirnar eru birtar með góðfúslegu leyfi frá hótel Gassner