BLED OG NÁGRENNI Í SLÓVENÍU
HELSTU UPPLÝSINGAR
Bled vatnið er einn mest sótti ferðamannastaður Slóveníu og ekki að undra; náttúrufegurð nær og fjær, veðursæld og snyrtilegt umhverfið búa saman til ógleymanlega upplifun!
Farið verður í mjög fjölbreyttar göngu- og hjólaferðir þar sem við sögu koma fallegt gljúfur, kýr í seli, stöðuvötn og ár, og svo ótalmargt annað, og ýmist farið beint frá hótelinu eða með rútu sem að skutlar fólkinu á upphafsstað og tekur það uppí annarsstaðar.
Þó að þetta sé fyrst og fremst hugsað sem frekar létt útivistarferð verður líka tími til þess að slaka á og skoða sig um í Bled. Og svo verða tvær flottar dagsferðir; rútuferð um falleg svæði á miðvikudeginum, m.a. um Vrsic skarðið og Soca dalinn, og á föstudeginum verður svo farið til Postojna til þess að skoða eina frægustu dropasteinshella í heimi og endað á borgarskoðun í litlu og snotru höfuðborg landsins, Ljubljana.
Dvalið verður á góðu og nýlega uppgerðu og flottu fjögurra stjörnu hóteli, Rikli Balance ****S hótel, mjög vel staðsettu í bænum Bled. Öll herbergi þessa hóps eru með útsýni út á vatnið, sem er sannkallað „póstkorta-landslag“! Og mjög fjölbreytt og vel útilátin morgun- og kvöldverðahlaðborðin svigna undan kræsingum!
Auk máltíðanna á hótelinu verður glæsileg vínsmökkunarkvöldmáltíð á Lepa Vida vínbúgarðinum og síðan setur lokakvöldverðurinn á Vila Podvin punktinn yfir i-ið! Í lok ferðar ætti hópurinn að verða margs vísari um þetta litla en fallega land sem hefur verið kallað ein af perlum Evrópu, og líklegt að þátttakendur taki undir helsta slagorð Slóvenanna: „I feel Slovenia“
MJÖG MIKIÐ INNIFALIÐ Í VERÐI FERÐARINNAR!