DÓNÁRDRAUMUR 2025 - RAFHJÓLAFERÐ
HELSTU UPPLÝSINGAR
LÉTT OG SLÉTT - OG SVO SKEMMTILEGA FJÖLBREYTT
- UPPFÆRSLA 2025: ENN BETRI HJÓL, TVEIR FARARSTJÓRAR*, FYLGDARBÍLL ALLAN TÍMANN
Ein fjölfarnasta og vinsælasta hjólreiðaleið Evrópu liggur meðfram Dóná, frá Passau í Þýskalandi austur til Vínarborgar í Austurríki, og árlega bjóða Fjallakofinn-Ævintýraferðir / Íslandsvinir upp á ferð um þessar fallegu og áhugaverðu slóðir.
Þessar vinsældir eru engin tilviljun, leiðin fylgir þessu mikla fljóti um bugður og beygjur þar sem ýmist er flatlendi með þorpum og bæjum allt í kring eða þröngir dalir þar sem gamla kastala ber við himin á skógi vöxnum hæðum og ásum ofan árinnar. Áætluð heildarhjólun ferðarinnar er uþb. 360 km.
Landslagið er fjölbreytt og fallegt og ýmist er hjólað sunnan eða norðan megin árinnar. Skipastigar og vatnsaflsstöðvar eru á nokkrum stöðum í ánni og þar er farið yfir hana eða á brúm eða með litlum þjónustu bátum.
Vænta má hitastigs frá 10 – 25°C og notalegrar vorstemningar í veðráttu og náttúrufari.
Skip og bátar af ýmsum stærðum og gerðum sigla um fljótið og á frjósömu landinu meðfram ánni er rekinn blómlegur landbúnaður.
Byggð hefur verið á þessu svæði í árþúsundir og í ferðinni verður stiklað á mjög stóru um viss tímabil í sögu þess. Hjólaleiðin er nánast alveg flöt eða örlítið niður á við og dagleiðirnar eru u.þ.b. 50 – 70 km.
Í lok ferðar verður farið í skoðunarferðir með leiðsögn til þess að sjá ýmsa merka staði og byggingar í Vínarborg og Salzburg.
Gist verður á þægilegum 3*** og 4****hótelum og gistihúsum. Farangur (ein taska á mann) verður fluttur með bíl á milli gististaða á hjólaleiðinni.
Þetta er ferð sem hentar nánast öllum sem á annað borð geta hjólað. Þó ber að hafa í huga að hjólað er sex daga í röð þannig að þátttakendur þurfa að vera vanir að sitja hjól í nokkra klukkutíma á dag.
Allir þátttakendur verða á rafhjóli!
Mjög mikil þjónusta – tveir hjólandi fararstjórar og bíll sem flytur farangur á milli gististaðanna verður nýttur sem hressingarstöð með reglulegu millibili.
Lágmarks fjöldi er 12 manns / hámark 18 manns
Ferðaráætlun:
Dagur 1 – miðvikudagur, 28. maí
Munchen - Passau
Flogið með Icelandair kl. 07:20 til Munchen, áætluð lending þar kl. 13:05 og við tekur lestarferð til Passau, sem tilheyrir Bæjaralandi í Þýskalandi.
Dagar 2 til 7 – fimmtudagur, 29. maí, til þriðjudags, 3. júní
Passau – Vín
Byrjað er á að skoða miðbæinn í Passau, borg hinna þriggja fljóta, en síðan hefst hin eiginlega hjólaferð í framhaldi af því – uþb. miðjavega á fyrstu dagleið er farið yfir landamærin inn í Austurríki og verið þar það sem eftir lifir af hjólaleiðinni.
Næstu daga verður farið um fjölbreytt og fallegt landslagið meðfram Dóná þar sem ótalmargt smærra og stærra vekur athygli; um grösugar sveitir og glitrandi torg og fylgst með mannlífi, dýralífi og fuglum himinsins eða hverju því öðru sem fyrir augu ber. Um Schlögen (þar sem áin tekur 180° beygju), Linz (eina af menningarborgum Evrópu 2009), Wachau dalinn (á heimsminjaskrá UNESCO) o.fl. o.fl. – Og svo eru allskonar skip og bátar á ferð með fólk eða varning upp og niður eftir ánni.
Kíkt á skipastiga, friðarsúlur, frægar svalir, inn í fjós og líka farið á mismunandi söfn (valkvætt).
- Upptalning segir ekki nema hálfa sögu, því að nú sem ætíð er sjón sögu ríkari!
Dagleiðirnar eru uþb. 50 – 70 km og farið frekar rólega um til að upplifa það sem fyrir augu ber og hver dagur nýttur í að njóta frekar en þjóta þar sem dagleiðin öll er markmið hvers dags, en ekki bara næsti gististaður.
Seinnipart dags þann 3. júní verður komið inn á hótel í Vínarborg
Dagur 8 – miðvikudagur, 4. júní
Vínarborg og Salzburg
Eftir morgunverðinn verður farið akandi og gangandi í skoðunarferð um miðbæinn í Vínarborg í leiðsögn heimamanns, til að sjá nokkur af helstu kennileitum þessarar fallegu borgar, en þar eru bæði borgarhlutar og byggingar á heimsminjaskrá UNESCO. Seinnipartinn verður svo farið með lest til Salzburg.
Dagur 9 – fimmtudagur, 5. júní
Salzburg
Salzburg er lítil og snotur borg, og eftir morgunverðinn verður farið í gönguferð með staðarleiðsögumanni til þess að kynnast betur borg Mozarts og Söngvaseiðs. Eftir hádegið verður svo frjáls tími til þess t.d. að tylla sér á kaffihús, smakka ósvikna Mozart kúlu, fara upp að kastalanum, kíkja í verslanir eða fara á söfn. Lokakvöldmáltíð ferðarinnar verður síðan tekin á góðum veitingastað.
Dagur 10 – föstudagur, 6. júní
Heim á leið...
Snemma dags verður farið með lest yfir til Munchen flugvallar, flugið heim er kl. 14:05
Gist í eða nálægt eftirtöldum borgum og bæjum:
28. maí - Passau
29. maí - Schlögen
30. maí - Linz
31. maí - Grein
1. júní - Emmersdorf
2. júní - Traismauer
3. júní - Vínarborg
4. og 5. júní - Salzburg
Morgun- og kvöldverðir alla dagana
* 10 - 12 þátttakendur = 1 hjólandi fararstjóri / 13 - 18 þátttakendur = 2 hjólandi fararstjórar