TÖFRAR GARDAVATNSINS - RAFHJÓLAFERÐ
HELSTU UPPLÝSINGAR
MJÖG FJÖLBREYTT RAFHJÓLAFERÐ UM ÆGIFAGURT LANDSLAG!
Gardavatnið á Ítalíu er stærsta stöðuvatn landsins og um stórbrotið landslagið við norður enda þess er frábært að ferðast. Það er ægifagurt í og við Riva del Garda, snarbrött fjöll rísa upp úr bláu djúpu vatninu, og bærinn kúrir í skjóli þeirra á flatlendinu norðan vatnsins. Þar eru fallegar byggingar, notalegt og afslappað andrúmsloft, og gaman að rölta um bæinn síðdegis og á kvöldin eftir vel heppnaðan ferðadag.
Dagleiðirnar eru mjög fjölbreyttar, mis erfiðar vissulega, og þátttakendur þurfa að vera í þokkalegu formi til þess að njóta þess sem gert er, auk þess sem skilyrði er að þeir séu vanir hjólreiðum, því verið er á hjólunum meira og minna allan daginn nokkra daga í röð, og við mismunandi landfræðilegar aðstæður.
Þetta er svo sannarlega „njóta, en ekki þjóta“ ferð – Allt þarna er þannig að það er mikið álag á skynfærin, hvort sem talað er um augu, eyru, munn, nef eða húð; þetta landslag krefst tíma til þess að upplifa það og meðtaka að fullu, og síðan að anda að sér gróðurilmi og andrúmslofti fortíðar, en þó fyrst og fremst nútíðar. Og á meðan sólargeislarnir bæta D-vítamíni í kroppinn má hlusta á kvak í fugli eða suð í flugu, og svo er svo víða hægt að smakka góðan mat.
Eina takmark hvers dags er að klára dagleiðina og njóta þess sem fyrir augu ber – og koma óskemmdur inn á hótel fyrir kvöldmatinn!
Alltaf verður verið á sama hótelinu og þar verða snæddir morgunverðir alla dagana. Hótel Sole er gott fjögurra stjörnu hótel og er frábærlega staðsett í hjarta gamla bæjarins í Riva þar sem það stendur við höfnina og aðaltorg bæjarins. Öll herbergin sem frátekin eru fyrir hópinn snúa út að vatninu svo það er „póstkortalandslagsmynd“ sem blasir við þegar horft er út um gluggann! Útfrá hótelinu er síðan lagt af stað að morgni gangandi, hjólandi eða akandi í lengri eða styttri dagsferðir.
Flest kvöldin verða kvöldverðir snæddir á hótelinu, en tvær síðustu máltíðirnar verða á góðum veitingastöðum í bænum.
Allir þátttakendur verða á góðum rafmagns-fjallahjólum frá honum Stefano í The Lab hjólaleigunni. Lang mestan hluta ferðarinnar verður verið á bundnu slitlagi á umferðarlitlum götum, vegum og hjólastígum, en einnig á malarstígum, mis grófum, og sumsstaðar eru brattir kaflar þar sem farið er um.
Í lok ferðar verður farið í skoðunarferð um miðborg Milano.
____________________________________________________________________________________________________________
Smellið á "Nánari upplýsingar" hnappinn hægra megin hér fyrir ofan til þess að lesa um dagskrá ferðarinnar, verð o.fl.