TÖFRAR GARDAVATNSINS - RAFHJÓLAFERÐ
HELSTU UPPLÝSINGAR
FJÖLBREYTT RAF-FJALLAHJÓLAFERÐ TIL ÍTALÍU!
Gardavatnið á Ítalíu er stærsta stöðuvatn landsins og um stórbrotið landslagið við norður enda þess er frábært að ferðast. Það er ægifagurt í og við Riva del Garda, snarbrött fjöll rísa upp úr bláu djúpu vatninu, og bærinn kúrir í skjóli þeirra á flatlendinu norðan vatnsins. Þar eru fallegar byggingar, notalegt og afslappað andrúmsloft, og gaman að rölta um bæinn síðdegis og á kvöldin eftir vel heppnaðan ferðadag.
Dagleiðirnar eru mjög fjölbreyttar, mis erfiðar vissulega, og þátttakendur þurfa að vera í ágætu formi til þess að njóta þess sem gert er, auk þess sem skilyrði er að þeir séu vanir hjólreiðum, því verið er á hjólunum meira og minna allan daginn nokkra daga í röð, og við mismunandi landfræðilegar aðstæður.
Þetta er svo sannarlega „njóta, en ekki þjóta“ ferð – Allt þarna er þannig að það er mikið álag á skynfærin, hvort sem talað er um augu, eyru, munn, nef eða húð; þetta landslag krefst tíma til þess að upplifa það og meðtaka að fullu, og síðan að anda að sér gróðurilmi og andrúmslofti fortíðar, en þó fyrst og fremst nútíðar. Og á meðan sólargeislarnir bæta D-vítamíni í kroppinn má hlusta á kvak í fugli eða suð í flugu, og svo er svo víða hægt að smakka góðan mat.
Eina takmark hvers dags er að klára dagleiðina og njóta þess sem fyrir augu ber – og koma óskemmdur inn á hótel fyrir kvöldmatinn!
Alltaf verður verið á sama hótelinu og þar verða snæddir morgunverðir, af glæsilegu hlaðborði, alla dagana. Hótel Villa Miravalle er mjög gott þriggja stjörnu hótel , og er staðsett í útjaðri gamla bæjarins í Riva. Útfrá hótelinu er síðan lagt af stað að morgni gangandi, hjólandi eða akandi í lengri eða styttri dagsferðir.
Fyrsta kvöldið verður kvöldverður snæddur á hótelinu og þrjár síðustu máltíðirnar verða á góðum veitingastöðum í bænum (innifalið).
Allir þátttakendur verða á góðum fulldempuðum raf-fjallahjólum. Stóran hluta ferðarinnar verður verið á bundnu slitlagi á umferðarlitlum götum, vegum og hjólastígum, en einnig á malarstígum, mis grófum, og sumsstaðar eru brattir kaflar þar sem farið er um.
Lágmarks fjöldi er 9 manns, hámark 14.
Ferðaráætlun:
Dagur 1 - föstudagur, 15. maí
Flogið til Malpensa (Milano)
Flogið með Icelandair frá Keflavík til Malpensa (Milano) kl 09:00 - áætluð lending 15:10 og við tekur rúmlega þriggja tíma akstur til Riva del Garda. Kvöldverður á veitingastað hótelsins (innifalið).
Dagur 2 - laugardagur, 16. maí
Riva og nágrenni
Hjólin sótt og síðan tekinn léttur kynningarrúntur um bæinn og næsta nágrenni hans.
Stoppað, spjallað, spáð og spekúlerað 😊
Dagur 3 - sunnudagur, 17. maí
Sarca dalurinn
Byrjað á að hjóla til bæjarins Arco, og svo áfram þar innúr til þess að sjá flottu hamraveggina norðan við bæinn, en síðan um fjölbreyttan og fallegan Sarca dalinn og með samnefndri á, inn að litla þorpinu Pietramurata. Þaðan farið aftur til baka, að megninu til aðra leið, núna framhjá Cavedine vatni.
Hækkun/lækkun* u.þ.b. 400m – U.þ.b. 60 km. Umferðarlitlir sveitavegir/góðir hjólastígar, þar af malarstígar u.þ.b. 2 km – Þyngd 2 af 5
Dagur 4 - mánudagur, 18. maí
Lago di Ledro
Farið í bíl með hjólin upp að Lago di Ledro (Ledro vatni) sem er ein af perlum svæðisins. Hjólað umhverfis vatnið og síðan niður í áttina að Riva. Tekinn smá útúrdúr til að koma við á fallegum útsýnisstað og þaðan upp í þorpið Pregasina áður en hjólað verður um hið magnaða mannvirki „Strada del Ponale“ niður til Riva. Þetta reynir talsvert á getu þátttakenda vegna aðstæðna á hjólastígunum.
Hækkun* u.þ.b. 200m/lækkun* u.þ.b. 750m – U.þ.b. 35 km, skiptist til helminga í umferðarlitla sveitavegi og hjólastíga, þar af malarstígar u.þ.b. 6 km – Þyngd 3 af 5
Dagur 5 - þriðjudagur, 19. maí
Nago og nágrenni
Austur með vatninu til Torbole, þaðan upp þægilega leið til Nago, farið á flottan útsýnisstað og svo þvælst um nágrennið áður en farið verður niður aftur og heim á hótel.
Hækkun/lækkun* u.þ.b. 250m – U.þ.b. 40 km. Umferðarlitlir sveitavegir/góðir hjólastígar, þar af malarstígar u.þ.b. 4 km – Þyngd 2-3 af 5
Dagur 6 - miðvikudagur, 20. maí
Malcesine – Monte Baldo
Hvíldardagur, a.m.k. ekki hjólað! Farið með strætó til bæjarins Malcesine sem er við austurströnd vatnsins og síðan með í kláfi upp á fjallið Monte Baldo. Þaðan er víðsýnt til allra átta, m.a. yfir nánast allt Garda vatnið. Svo verður farið niður aftur með kláfnum, kastalinn skoðaður og rölt um gamla bæinn en síðan ekið heim á hótel aftur.
Dagur 7 - fimmtudagur, 21. maí
Tremosine og Limone
Nú verður hópnum skutlað dálítinn spotta suður með vatni að vestanverðu en svo stigið á bak hjólunum til að fara magnaða leið á malbikuðum bílvegi upp fjallið og um stutt en stórbrotið gljúfrið í Val Brasa, og áfram upp í þorpið Pieve. Hjólaður góður hringur um Tremosine svæðið, og niður í hinn fallega bæ Limone sul Garda. Að lokum verður svo siglt með ferju heim til Riva aftur.
Hækkun/lækkun* u.þ.b. 600m – U.þ.b. 30 km. allt bundið slitlag, þar af umferðarléttir sveitavegir 23 km. – Þyngd 3 af 5
Dagur 8 - föstudagur, 22. maí
Comano og nágrenni
Þennan dag verður farið í mjög fjölbreytta ferð úti í sveit og um skógarstíga og lítil, gömul þorp. Byrjað á bílferð en síðan hjóluð fjölbreytt og falleg leið um Sarca gljúfrið, farið um Comano Terme, framhjá Lago di Tenno vatninu og inn í miðalda- og listamannaþorpið Canale di Tenno, áður en farið verður niður til Riva aftur. Í lok dags verður svo hjólunum skilað.
Hækkun* u.þ.b. 600m/lækkun* u.þ.b. 800 – U.þ.b. 40km á hjólastígum og umferðarlitlum sveitavegum, þar af malarstígar (að hluta til frekar gróft undirlag) u.þ.b. 10km – Þyngd 3-4 af 5
Dagur 9 - laugardagur, 23. maí
Slökun í Riva
„Frjáls“ dagur til þess að slappa af eftir góða hjóladaga
Dagur 10 - sunnudagur, 24. maí
Ferðadagur, heim á leið ...
Ekið suður með Gardavatninu að austan og nokkrir áhugaverðir skoðaðir á leiðinni til Feneyjaflugvallar
Verð á mann í tveggja manna herbergi 559.900
Verð á mann í eins manns herbergi 659.900
Innifalið
Flug og flugvallaskattar:
15.05.2026: Flug FI 590 Keflavík – Malpensa (Milano), brottför 09:00 lending 15:10
24.05.2026: Flug FI 949 Feneyjar – Keflavík, brottför 16:10 lending 18:50
Innifalið ein taska að hám. 23 kg og handfarangur að hám. 10 kg
Vinsaml. athugið að flugtímar geta breyst
Níu nætur á mjög góðu Hótel Villa Miravalle í Riva del Garda
Morgunverðir alla dagana / fjórir kvöldverðir í Riva og nágrenni**
Íslenskur fararstjóri - Brandur Jón H. Guðjónsson
Leiga á góðum fulldempandi raf-fjallahjólum
Allur akstur og aðrir flutningar (kláfur, ferja o.þ.h.) sem þarf til að fylla inn í áætlun ferðarinnar
Aðgangseyrir að fortíðarsafninu við Ledro vatnið / aðgangseyrir í kastalann í Malcesine
Ekki innifalið
Aðgangseyrir á önnur söfn en upptalin eru hér ofar / Hádegishressingar / Drykkir með kvöldverðum / Annað það sem ekki er talið upp í „innifalið”
Greiða þarf staðfestingargjald, kr. 100.000 strax við skráningu - ath. að það er óendurgreiðanlegt ef þátttakandi hættir við - til greiðslu þess eru tvær leiðir:
* Félagar í Vildarklúbbi Icelandair safna punktum í þessu flugi - ekki er hægt að nýta Vildarpunkta Icelandair til greiðslu inn á hópferð sem þessa